
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Seyðisfjarðarkirkja, í núverandi mynd, var reist á árunum 1920 til 1922 og vígð í ágústmánuði 1922. Hún er að hluta til smíðuð upp úr eldri kirkju sem stóð á Vestdalseyri fram til 1920. Nýja kirkjan á Fjarðaröldunni er stærri og veglegri en eldri kirkjan á Vestdalseyri en gluggagerð og ýmis önnur stíleinkenni eru þau sömu. Jón G. Jónasson var fenginn til að teikna hið nýja hús, en hann hafði menntað sig í málaraiðn í Bergen á árunum 1900-1903. Yfirsmiður kirkjunnar var Sigurður Björnsson og með honum vann Stefán Runólfsson á Ósi. Jón Vigfússon múrarameistari lagði grunn kirkjunnar. Kirkjan var vígð 6. ágúst árið 1922.
Seyðisfjarðarkirkja er yngsti en jafnframt stærsti og glæsilegasti fulltrúi fyrir ákveðna gerð austfirskra timburkirkna sem bera skýr staðbundin einkenni, þ.e. þakturn og stóra smárúðótta bogaglugga. Seyðisfjarðarkirkja ber jafnframt sterk einkenni norskrar timburhúsahefðar sem ráðandi er í gamla bænum á Seyðisfirði og er meðal stærstu og veglegustu fulltrúa bárujárnsklæddra timburkirkna aldamótaáranna. Seyðisfjarðarkirkja er oft nefnd Bláa kirkjan og er hún orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með sinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum.
Árið 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en nú er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, sem gefnir voru kirkjunni eftir miðja 20. Ö öld. Skírnarfonturinn er úr tré. Hann skemmdist mikið i brunanum 1989, en hefur verið endurgerður. Kirkjuklukkurnar eru að öllum líkindum úr Vestdalseyrarkirkja.


