
- Heiðrún Helga Bjarnadóttir Back
- Sóknarprestur

Borgarneskirkja var vígð á uppstigningardegi þann 7. maí árið 1959. Arkitekt kirkjunnar er Halldór H. Jónsson. Kirkjan er steinsteypt og klædd að utan með akrílmúr. Turninn er steinsteyptur upp í 10.80 metra hæð. Turnspíra og þak eru klædd kopar. Á turnspíru er kross. Í turni er hringlaga gluggi með klukku.
Í kirkjunni er vandað hljóðkerfi. Kirkjan á kaleik og patínu, sem voru gjöf við vígslu kirkjunnar. Þá á kirkjan altariskönnu og brauðöskjur úr silfri og sex sérbikarar úr silfri. Í kór er skírnarfontur úr tré, frá árinu 1970, útskorinn af Kristjáni og Hannesi Vigfússonum og smíðaður af Valdimar Jóhannessyni. Í kirkjunni er Yamaha flygill frá árinu 1976. Orgel Borgarneskirkju var smíðað hjá Walker verksmiðjunni í Ludwigsburg í Þýskalandi árið 1968 og sett upp í kirkjunni sama ár. Árið 1959 voru tvær kirkjuklukkur settar upp í turni kirkjunnar. Klukkurnar voru steyptar í Vestur-Þýskalandi af Engelbert Gebhard. Árið 1999 voru hringingartæki öll endurnýjuð.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson
