Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Skarði, 851 Hellu
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Kirkjugarður
Fjöldi: 80
Sókn
Skarðssókn

Skarðskirkja á Landi

Skarðskirkja er timburkirkja á steyptum grunni og var byggð árið 1931. Hún skiptist í forkirkju með turni, kirkjuskip og kór. Vestast er þríhólfuð turnstúka. Á henni er einn gluggi á hvorri hlið og einn á austurgafli, allir með sama lagi og gluggar aðalkirkjunnar, en minni. Framundan kirkjudyrum eru steyptar tröppur með fjórum þrepum, sem ganga fram og til hliðar með stafninum. Kirkjan er klædd að utan með bárujárni og máluð ljósgrá, þakið er klætt bárujárni, dökkgrátt á lit.

Fyrir kirkjudyrum er tvívængjuð hurð úr viði, þá önnur tvívængjuð hurð úr fordyrinu inn í kirkjuskipið. Að sunnanverðu í kirkjunni beint á móti, stendur prédikunarstóll málaður rauðbrúnn, áttstrendur á eins löguðum tréfæti, og tröppur upp í hann á suðurhlið, fast við gaflinn. Altaristaflan sýnir Krist blessa börnin. Hún er máluð að danska málaranum Carl Block. Skírnarfonturinn er afar gamall, skálin úr kopar og mynd af syndafallinu í botni hennar og stöpullinn úr viði, sexstrendur. Hann er geymdur í kapellu prestssetursins í Fellsmúla. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri. Skálin er gyllt að innan, á henni er sexstrendur hnúður og er skrautbekkur undir skál og milli fótar og leggs. Hún er gömul smíð. Patínan er samstæð kaleiknum, gyllt með vígslukrossi á barmi. Þá á kirkjan kaleik með stúti, úr nýsilfri, og 20 litla sérbikara. Skírnarfontur úr birki er í kirkjunni, unninn af Friðrik Friðrikssyni, með saumaðri mynd á framhlið, sem Árný Filippusdóttir frá Hellum gerði. Rafmagnsorgel er í kirkjunni frá árinu 1971. Kirkjuklukkurnar eru tvær, önnur lítil úr gömlu kirkjunni, hin stærri smíðuð í vélsmiðjunni Hamri árið 1931.

Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Gunnbjörg Óladóttir
  • Héraðsprestur Suðurprófastdæmis