Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Aðalstræti 53, 450 Patreksfirði
Bílastæði
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 180
Sókn
Patreksfjarðarsókn

Patreksfjarðarkirkja

Patreksfjarðarkirkja er friðuð kirkja, sem byggð var á árunum 1904 - 1907 eftir uppdráttum Sigurðar Magnússonar læknis. Árið 1935 var timburgaflinn rifinn og byggður nýr turn úr steinsteypu, eftir teikningu húsameistara ríkisins. Árið 1957 var kórbyggingin breikkuð til norðurs og áratug síðar voru reistar viðbyggingar báðu megin stöpuls og kórbygingingin breikkuð til suðurs, hvort tveggja eftir teikningum Ragnars Emilssonar arkitekts.

Á kirkjunni er mænisþak, klætt bárujárni. Á kirkjuhúsinu er 21 gluggi. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir. Kirkjan öll bæði grunnur og veggir eru úr steinsteypu. Altaristaflan er eftirmynd af málverki danska listmálarans Anthons Dorph og sýnir Krist hjá þeim systrum Mörtu og Maríu. Ekki er vitað hver gerði eftirmyndina.

Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðað af Vali Fannar gullsmið í Reykjavík, sem gefið var til kirkjunnar árið 1978. Skírnarfonturinn er úr silfruðum léttmálmi með glerskál og átta kertstjökum í tveimur krönsum. Hann var keyptur í Englandi og gefinn kirkjunni árið 1946 af sjómönnum á Patreksfirði. Klukkur Patreksfjarðarkirkju voru fengnar nýjar í kirkjuna nýbyggða.

Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Bryndís Svavarsdóttir
  • Sóknarprestur