
- Snævar Jón Andrésson
- Sóknarprestur

Hvammskirkja í Dölum er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1883–1884. Hönnuður hennar var Guðmundur Jakobsson forsmiður. Veggir voru í upphafi klæddir listaþili en árið 1933 var turninn klæddur sléttu járni og veggir bárujárni ári síðar. Turninn var klæddur að nýju með listaþili árið 2000 og færður til upprunalegs horfs. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með lauklaga þaki og hlera á framhlið. Undir honum er bjúgstallur. Kirkjan er bárujárnsklædd, en turn klæddur sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir sexrúðu gluggar og einn á framstafni yfir forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk á striga og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Verkið er danskt, en ómerkt. Töflunnar er fyrst getið árið 1869, en aldur hennar er óviss. Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Kaleiksskálin er eftir Björn Magnússon 1809-1866 gullsmið í Gvendareyjum, en leggur og fótur er af gömlum kaleik, líklegast frá 18. öld. Patínan er nýleg. Klukkur Hvammskirkju eru báðar leturlausar og munu vera frá miðöldum.
