- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur

Þverárkirkja
Þverárkirkja í Laxárdal er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var árið 1878. Hönnuður hennar var Baldvin Sigurðsson steinsmiður. Tréverk vann Þorgrímur Jónsson forsmiður frá Gilsá. Bárujárnsklætt risþak er á kirkjunni og á því hálfvalmi yfir kórbaki. Upp af vesturstafni er ferstrendur timburturn klæddur bárujárni og sléttu járni og á honum íbjúgt píramítaþak klætt sléttu járni. Veggir kirkju eru sléttaðir með þunnum múr svo hleðslan skín í gegn og múrbrún er undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar en hringgluggi ofarlega á kórbaki og framstafni. Þvergluggi er á framhlið turns og hlerar fyrir hljómopi á hvorri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogagluggi. Hvorum megin dyra er framstæð flatsúla, þverbiti á milli þeirra, en bogadregin brún yfir glugganum.
Altaristaflan er eftirmynd Arngríms Gíslasonar af málverki eftir franska listmálarann Charles-André van Loo og sýnir upprisu Krists. Taflan er líklega gerð árið 1879. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurhúðuðum málmi, sem eru danskir gripir, keyptir til kirkjunnar árið 1881. Skírnarfonturinn er úr tré, útskorinn af Jóhanni Björnssyni myndskera á Húsavík árið 1958. Klukkur Þverárkirkju eru báðar frá 19. öld, önnur frá árinu 1852, hin frá árinu 1878.

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur