
- María Guðrúnar. Ágústsdóttir
- Sóknarprestur

Lundarkirkja var vígð þann 23. júní árið 1963. Kirkjusmiður var Þorvaldur Brynjúlsson frá Hrafnabjörgum. Kirkjan er úr steinsteypu, bæði veggir, gólf og gaflar. Kirkjan er hvítmáluð utan og innan. Þak og turnspíra eru rauðmáluð. Greta og Jón Björnsson önnuðust málningu og myndskreytingu kirkjunnar fyrir vígslu. Stöpull er undir turni og nær og hann örlítið vestur úr kirkjugafli. Á stöpli ofan við kirkjudyr er hringlaga skjöldur úr blágrýti, settur upp að tilhlutan Ingimundar Ásgeirssonar frá Reykjum. Á skjöldinn er ritað: „Lundarkirkja 23. júní 1963 – sýnið trú yður í verkunum.“ Á gafli að utanverðu er steyptur kross.
Útihurð kirkjunnar er spjaldahurð, bogadregin með tíu spjöldum. Átta bogadregnir gluggar eru á hvorri hlið kirkjunnar. Tveir litlir gluggar eru á vesturgafli og þrír á hvorri hlið í turni. Altaristaflan er eftir Þórarin B. Þorláksson. Hún var máluð eftir frummynd Carl Bloch. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, sem eru gamlir gripir.
Skírnarfonturinn er með skírnarskál úr eldri fonti og er byggður upp á sexstrendri súlu. Á spjöldum fontsins eru áletranir og kristileg tákn. Skírnarfonturinn var gerður af Halldóri Sigurðssyni og Hlyni Halldórssyni árið 1986. Rafmagnspípuorgel með fótspili var keypt árið 1994 frá Njarðvíkurkirkju. Tvær gamlar kirkjuklukkur eru í turninum.
