Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Núpstaðarvegi, Fljótshverfi, 881 Kirkjubæjarklaustri
Fjöldi: 20

Bænhúsið á Núpsstað

Bænhúsið er væntanlega frá árinu 1850, þó sumir telji það frá árinu 1657 og er hönnuður þess ókunnur. Bænhúsið á Núpsstað hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1930 og er það gert úr torfi og timbri. Þakið er krossreist og lagt torfi. Hliðarveggir og kórbak, upp undir glugga, eru hlaðin úr torfi og grjóti. Kórbaksþilið yfir torfvegg og allur framstafninn eru klædd slagþili. Á kirkjunni eru tvöfaldar vindskeiðar með afturáslætti að ofan. Á kórbaki er póstgluggi með tveimur tveggja rúðu römmum og uppi á framstafni yfir kirkjudyrunum er lítill tveggja rúðu gluggi. Fyrir kirkjudyrum er spjaldahurð.

Inn af kirkjudyrum er framkirkja og í henni hellulagt gólf og veggbekkur sitt hvoru megin. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs. Kórgólf er klætt borðum og hafið yfir kirkjugólf um tvö þrep. Altari er undir kórbaksglugga en hvorki eru grátur né prédikunarstóll í bænhúsinu. Veggir framkirkju og kórs eru klæddir breiðum þiljum en kórgafl reitaþiljum. Yfir fremsta hluta framkirkju er loft á bitum en skarsúð á sperrum yfir innri hlutanum og kór. Húsið er ómálað að innan.

Altarið er frá árinu 1789 og mun vera úr kirkjunni í Stóra-Dal undir Eyjafjöllum. Ljósprentuð mynd sem sýnir frelsarann hangir á kórgafli yfir glugga. Altarisstjakar frá 18. öld eru í barokkstíl. Klukka bænhússins hangir uppi á framlofti. Hún er talin vera skipsklukka, ekki eldri en frá árinu 1765.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ingimar Helgason
  • Sóknarprestur