Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kirkjuhvammi, 530 Hvammstanga
Kirkjugarður
Bílastæði
Fjöldi: 70

Kirkjuhvammskirkja

Kirkjuhvammskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1880–1882. Hönnuðir hennar voru Björn Jóhannsson smiður og Stefán Jónsson snikkari. Í upphafi var pappi á kirkjuþaki en það var klætt bárujárni um 1910. Kirkjan hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1976. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er lágur turn og á honum er íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á háum og breiðum stalli með ferstrent bryggjumyndað þak. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni en turnþök sléttu járni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum og einn heldur minni er á framstafni. Vatnsbretti er yfir gluggum stutt kröppum.

Hljómop með hlerum fyrir eru á þremur hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir. Framundan kirkju eru trétröppur með fjórum þrepum. Altaristaflan er olíuþrykkt mynd eftir málverki prússneska málarans Johannes Heydeck frá árinu 1878. Hún sýnir Krist með lærisveinunum Pétri og Jóhannesi og Jóhannesi skírara. Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðuð af Helga Þórðarsyni silfursmið á Brandsstöðum í Blöndudal á árunum 1821-1822. Skírnarfat frá árinu 1755 hangir í kór sunnan altaris. Klukka Kirkjuhvammskirkju er frá árinu 1705. Hún var keypt frá Þingeyrarkirkju árið 1869.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi