
- Bryndís Svavarsdóttir
- Sóknarprestur

Bíldudalskirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var á árunum 1905–1906. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Stallur er á miðjum stöpli en efst er áttstrendur burstsettur turn með spíru upp af. Á hornum turns eru hálfsúlur en blindgluggar málaðir á hliðar. Þak kirkju er krossreist og klætt bárujárni en turn klæddur sléttu járni. Veggir eru múrhúðaðir og steinhleðsla dregin í yfirborðið, stórgerð upp undir glugga en smágerðari ofar. Sökkulbrún er við gólfhæð, múruð vindskeið undir þakbrúnum, en múrbrún undir þakskeggi og leidd fyrir framgafl og stöpul.
Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogdregnir smárúðóttir gluggar úr steypujárni, tveir minni ofarlega á framstafni kirkju og tveir á framhlið stöpuls. Fyrir kirkjudyrum eru hlífðarhurðir sem rennt er til hliðar en vængjahurðir innar.
Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1916 eftir Þórarin B. Þorláksson listmálara og sýnir Krist upprisinn birtast Maríu Magdalenu í íslensku landslagi.Í kirkjunni er einnig altaristafla, sem gerð var í Danmörku árið 1737 og var áður í Otradalskirkju. Taflan er máluð á tré og sýnir síðustu kvöldmáltíðina og krossfestingu Krists undir boganum efst á töflunni.
Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðuð árið 1761 af íslenska gullsmíðameistaranum Guðbrandi Jónssyni, sem starfaði í Kaupmannahöfn. Prédikunarstóllinn er sjöstrendur með máluðum myndum, gerður í Danmörku árið 1693 og gefinn til Otradalskirkju það ár. Skírnarfonturinn er úr Otradalskirkju, áttstrendur úr tré í barokkstíl. Hann var smíðaðaur í Danmörku, líklega um svipað leyti og prédikunarstóllinn.
Á skírnarfontinum er máluð mynd sem sýnir Jóhannes skíra Jesú í ánni Jórdan. Kirkjan á stóra klukku sem hangir í trégálga við Tálknafjarðarkirkju. Minni klukka kirkjunnar var áður í Otradalskirkju og er með ártalinu 1692. Hún hangir undir tréþaki ofan við aðalgötu kauptúnsins.
