
- Aðalsteinn Þorvaldsson
- Prestur

Síðsumars árið 1858 var ný Saurbæjarkirkja reist og var yfirsmiður hennar Ólafur Briem, timburmeistari á Grund. Ólafur var mikilvirkur forsmiður í Eyjafirði um sína daga en hann nam trésmíði í Kaupmannahöfn á árunum 1825-1831. Áhrifa úr klassískum byggingarstíl, sem Ólafur hefur kynnst í Danmörku gætir í gerð og umbúnaði kirkjunnar. Þegar Saurbæjarkirkja var reist árið 1858 var kirkjugarðurinn utan um hana allur úr torfi og grjóti og nokkru minni en nú er. Klukknaport var í sáluhliði sem vísitasía árið 1846 getur á þessa leið: „Sálarhliðskampar eru vel upphlaðnir, og nýtt, sterkt og vandað klukknaport er nýsmíðað úr nýjum við.“
Saurbæjarkirkja er í dag stærst þeirra fáu torfkirkna sem varðveist hafa á landinu. Hún hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1962. Altristaflan er krossfestingarmynd máluð á striga. Hún kom frá Miklagarðskirkju um aldamótin 1800. Skírnarfat úr messing var komið í kirkjuna fyrir aldamótin 1600, en gæti þó verið eldra. Renndur hvítmálaður fótur var gerður undir skírnarfatið árið 1962.


