
- Jarþrúður Árnadóttir
- Prestur

Áskirkja var reist úr timbri árið 1898 er sr. Þórarinn Þórarinsson þjónaði sókninni og var Vigfús Kjartansson frá Sandbrekku yfirsmiður. Kirkjan var vígð 30. október sama ár. Áður stóð á sama grunni allmyndarleg timburkirkja, en eitthvað minni, frá 1851. Úr þeirri kirkju er altaristaflan sem er litlu eldri en sú kirkja. Hún sýnir Krist á krossinum og er erlend, en ekki er vitað hver listamaðurinn var.
Prédikunarstóllinn og númerataflan eru sömuleiðis úr þessari gömlu kirkju. Skírnarfonturinn er fagurlega útskorinn af Þórarni Stefánssyni (1904-2002) frá Mýrum í Skriðdal. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri í gotneskum stíl, sennilega frá miðöldum. Þá á kirkjan þjónustukaleik úr silfri eftir Vigfús Stefánsson Frydensdal (1813-1842). Kirkjuklukkurnar eru frá 13. og 19. öld.


