
- Steinunn Þorbergsdóttir
- Djákni

Ingimundur Sveinsson og Gylfi Guðjónsson voru arkitektar Fella- og Hólakirkju. Haraldur Sumarliðason var ráðinn byggingameistari kirkjunnar. Kirkjan var vígð formlega á pálmasunnudag árið 1988.
Einkenni kirkjunnar er gluggabandið í kringum allt húsið og mikil jarðvegsfylling. Tilfinning fólks fyrir kirkjunni átti að vera sú, að hún væri vel jarðbundin en gluggabandið skæri efri hlutann frá jörðu og gerði hann ójarðbundnari. Í rökkri eða myrkri virðist efri hlutinn fljóta á jörðinni og benda til himins. Kirkjan er mjög hagkvæm og hefur fengið háa einkunn fyrir gott aðgengi. Öll salarkynni eru á sama gólfi, nema herbergi í kjallara, sem voru innréttuð síðar fyrir starfsemi sóknarnefndanna. Þar er einnig aðstaða fyrir unglinga og fundarherbergi. Milli hæða er lyfta auk stiga.
Steindir gluggar eru í gluggaböndum með táknum og orðum úr Heilagri ritningu. Altaristaflan er úr steindu gleri og þemað í henni er krossfestingin og upprisan. Hún hangir skáhallt yfir altari. Einnig er hangandi glerlistaverk í miðri kirkjunni sem sýnir sjö dúfur sem tákna gjafir andans. Öll þessi listaverk eru eftir Leif Breiðfjörð glerlistamann.
Altarið er úr blágrýti og marmara. Prédikunarstóllinn er einnig úr blágrýti og stendur vinstra megin við altari þegar horft er inn kirkjuskipið. Hægra megin við altarið er skírnarfontur gerður úr marmara.
Í kirkjunni er 23ja radda pípuorgel frá Marcussen og Søn Orgelbyggeri í Danmörku og var vígt þann þann 31. maí árið 1992. Orgelhúsið er úr furu og fellur vel að byggingarstíl kirkjunnar. Það þykir afar hljómgott enda er Fella- og Hólakirkja rómuð fyrir framúrskarandi hljómburð og vinsæl til tónleikahalds og fyrir upptökur á tónlist. Þá á kirkjan Steinway & Sons flygil, sem var sérvalinn og keyptur árið 1994 og Hundai píanó sem er í safnaðarsal.
Í safnaðarsal og kennslustofu er hægt að leggja á borð fyrir 150 manns. Þar hanga myndlistarverk eftir Steinunni Einarsdóttur sem skírskota til sálmsins „Eigi stjörnum ofar“. Glerskáli var byggður árið 1991 út frá gangarýminu.
Kirkjan á kaleik, patínu, vínkönnu og oblátuöskju úr ekta silfri með gyllingu smíðað af Hörpu Kristjánsdóttur, gull og silfursmið. Auk þess á kirkjan tvo leirkaleika og eina leirpatínu og kaleik úr messing, patínu og oblátuöskju úr messing. Í sérstökum klukknaturni við kirkjuna eru þrjár kirkjuklukkur sem voru keyptar árið 1991.



