
- Hans Guðberg Alfreðsson
- Prófastur Kjalarnessprófastdæmis

Bessastaðakirkja er friðlýst steinhlaðin kirkja, sem byggð var á árunum 1777-1795, en lokið var við að byggja turninn árið 1823. Hönnuður hennar var Andreas Peter Pfützner 1741-1793. Kirkjunni var gjörbreytt að innan á árunum 1946-1948. Hönnuður breytinganna var Guðjón Samúelsson arkitekt og húsameistari ríkisins. Risþak er á kirkjunni, lagt þaksteinum. Turninn er ferstrendur og á honum eirklætt píramítaþak. Veggirnir eru múrhúðaðir, en steinhleðslan skín í gegn, sökkulbrún er á þeim neðarlega og múrbrún undir þakskeggi turns. Undir þakskeggi kirkju er timburklætt þakskegg prýtt strikuðum borðum og listum og tvöfaldar vindskeiðar á stöfnum, strikaðar á brúnum. Á hvorri hlið eru fjórir bogadregnir gluggar með steindu gleri.
Dyr og gluggar sem múrað hefur verið upp í eru á hvorri hlið kirkju. Tveir litlir bogagluggar eru á þremur hliðum turns. Kirkjudyr eru í djúpu opnu anddyri, burstlaga að ofan, og fyrir þeim eru vængjahurðir. Altaristaflan er þrískipt olíumálverk frá árinu 1921 eftir Guðmund Thorsteinsson, Mugg og sýnir Krist lækna sjúka. Grátur með smíðajárnsmyndum voru gerðar af Jóni Árnasyni myndlistarmanni árið 1957 eftir teikningum Guðmundar Einarssonar frá Miðdal og Finns Jónssonar listmálara. Myndefnið er fangamark Krists og einkennistákn guðspjallamannanna.
Kirkjan á kaleik og patínu í gotneskum stíl frá 15. öld. Stétt kaleiksins er skreytt átta postulamyndum, hnúðurinn er verk Þorgríms Tómassonar 1782-1849 gullsmiðs á Bessastöðum. Skírnarfonturinn er úr dökku graníti í rómönskum stíl, keyptur til kirkjunnar í Danmörku árið 1866 af Grími Thomsen. Steindir gluggar kirkjunnar eru eftir Finn Jónsson. Í kirkjunni er gifsafsteypa af lágmynd Thorvaldsens, Verndarvættur byggingarlistarinnar, gerð árið 1843. Í turni eru tvær koparklukkur, önnur frá árinu 1827, hin frá árinu 1741.



