- Sólveig Halla Kristjánsdóttir
- Sóknarprestur
Bænhúsið á Rönd
Bænhúsið á Rönd er í einkaeign. Hugmynd að byggingu lítillar torfkapellu kviknaði hjá hjónunum Guðmundi Gíslasyni og Ernu Adolphsdóttur kringum árið 1978. Hörður Ágústsson listmálari tók saman skýrslu um kapellur og kirkjur sem staðið höfðu í Reykjahlíð fyrr á öldum, og gerði frumteikningu að kapellu þeirri, sem var reist. Grunnurinn var reistur sumarið 1984 og sá Salómon Erlendsson húsasmíðameistari og synir hans um það verk. Viðurinn í kapelluna var síðan valinn úr skógum Noregs af þeim hjónum Ernu og Guðmundi.
Árið 1985 var kapellan síðan tilhöggin og sett saman í Reykjavík og önnuðust Gunnar Bjarnason og Hildur M. Sigurðardóttir verkið. Yfirhleðslumaður við frágang kapellunnar í Mývatnssveit var Stefán Stefánsson, Brennigerði Skagafirði. Var frágangi kapellunnar lokið árið 1985. Útskorna dyrastafi gerði Sveinn Ólafsson tréskurðameistari. Hvoru tveggja kór og framkirkja eru eitt stafgólf með syllum, bitum, sperrum, langböndum, veggþiljum og reisifjöl. Í bjórþili kórs er tólfrúðu glergluggi, en í bjór framkirkju er vindauga. Dyr eru fyrir kapellunni með úthöggnum dyrastöfum, járnum og hurðarhring. Að aftan og framan eru útsniðnar vindskeiðar. Kapellan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Björgvini Svavarssyni silfursmið. Skírnarfontur er í kapellunni.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden

- Þorgrímur G. Daníelsson
- Sóknarprestur
