- Jóhanna Magnúsdóttir
- Sóknarprestur

Víkurkirkja
Víkurkirkja var vígð þann 14. október árið 1934, en bygging hennar hófst árið 1931. Hún er steinsteypt hús og tekur um 160 manns í sæti. Kirkjuna teiknaði Guðjón Samúelsson 1887-1950, húsameistari ríkisins. Yfirsmiður var Matthias Einarsson 1904-1999 frá Þórisholti. Á hliðum framkirkjunnar eru fjórir stórir gluggar. Tveir, sinn hvorum megin í kór, báðir opnanlegir og tveir sinn hvorum megin á skrúðhúsi, sem er sunnanvert í forkirkju og snyrtingu sem er norðan megin. Allir eru þeir á grindum milli glerja, svo rúður sýnast jafn margar í hverjum glugga og var í upphafi. Gluggar framkirkju eru skreyttir glerlistaverkum eftir Hrafnhildi Ágústsdóttur og hver þeirra hefur tilvísun í ritningarorð.
Altaristaflan í kirkjunni er olíumálverk og er eftirmynd sem Brynjólfur Þórðarson 1896-1938, listmálari, gerði af verki Carls H. Bloch 1834-1890 og sýnir bæn Krist í Getsemane. Frummynd altaristöflunnar er í Sankti Hans kirkju í Óðinsvéum í Danmörku. Kirkjan á kaleik, patínu og oblátursskrín úr silfri annað hvort frá árinu 1759 eða 1765. Gripirnir komu úr Höfðabrekkukirkju. Í kirkjunni er 11 radda pípuorgel í klassískum stíl, sem Ketill Sigurjónsson frá Forsæti í Villingaholtshreppi smíðaði. Er það prýtt útskurði eftir Sigríði Kristjánsdóttur á Grund í Villingaholtshreppi. Skírnarfonturinn er með útskurði eftir Ríkharð Jónsson. Skírnarskálin er úr postulíni. Tvær kirkjuklukkur eru í kirkjunni, önnur forn og vegleg, úr Höfðabrekkukirkju, hin er örlítið stærri og frá árinu 1958.
Ljósmynd tók Nicholas Babaian.