Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Skútustöðum, Mývatnssveitarvegur, 660 Mývatni
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 65
Sókn
Skútustaðasókn

Skútustaðakirkja

Skútustaðakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1861–1863. Hönnuður hennar var Þórarinn Benjamínsson forsmiður frá Akurseli í Öxarfirði. Í kringum aldamótin 1900 var pappi á þaki kirkjunnar, en það var síðar klætt bárujárni. Sökkull og gólf voru steinsteypt árið 1962 og breyttir gluggar settir í kirkjuna. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur tvískiptur turn. Neðri hluti hans er hár og breiður og á honum bryggjumyndað þak. Á því er lágur efri turn með hljómopum og hlera á hverri hlið og íbjúgu píramítaþaki. Kirkjan er klædd slagþili, þak trapisustáli, turnþök sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju og hvorum stafni eru þrír gluggar með sex rúðum.

Þeir sitja inni í veggjum sem nemur þykkt einangrunar utan á grind. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir. Altaristaflan er með vængjum, máluð á tré af óþekktum útlendum málara og sýnir síðustu kvöldmáltíðina á miðtöflu og postulana Pétur og Pál á hvorum væng. Hún mun vera frá 17. öld. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurhúðuðum málmi.

Þetta eru danskir gripir sem komu í kirkjuna árið 1880. Skírnarfonturinn var gerður af Hlyni Halldórssyni í Miðhúsum við Egilsstaði árið 1991. Klukkur Skútustaðakirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1541, hin var keypt til kirkjunnar árið 1834.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Sólveig Halla Kristjánsdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Þorgrímur G. Daníelsson
  • Sóknarprestur