
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Hvammstangakirkja var vígð þann 21. júlí árið 1957. Kirkjan er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, arkitekt og húsameistara ríkisins, en yfirsmiður var Snorri Jóhannesson á Hvammstanga. Kirkjan er steinsteypt með bárujárnsþaki og turni.
Í gluggum er litað gler. Gluggar eru smárúðóttir, 8 á forkirkju og turni, 8 á suðurhlið kirkjuskips og voru jafnmargir á norðurhlið, en nú hefur verið opnað þar til safnaðarheimilis. Altarisstytta af Kristi er á miðju altari, sem útskorin eikarbrík er um og krossmark yfir. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri eftir Helga Þórðarson silfursmið á Brandsstöðum í Blöndudal. Kaleikurinn er með stimpli og ártalinu 1821 og á patínuna er skrifað: Eggert Jónsson 1822. Eggert Jónsson var bóndi og kirkjuhaldari í Kirkjuhvammi. Skírnarskál úr gleri er í útskorinni tréskál sem stendur á trésúlu. Ríkarður Jónsson skar skálina. Pípuorgel er í kirkjunni, gert af Bruno Christensen og Sönner árið 1985. Tvær klukkur eru í turni kirkjunnar.

