
- Gunnar Eiríkur Hauksson
- Prófastur Vesturlandsprófastdæmis

Helgafellskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1903. Hönnuður hennar var Sveinn Jónsson, forsmiður frá Djúpadal. Turnspíran fauk af turninum árið 1924, en lægri og svipminni turn var byggður í staðinn. Árin 1986–1989 fóru fram endurbætur á kirkjunni og var turninn þá endurbyggður í upprunalegri mynd. Hönnuður endurbótanna var Pétur H. Ármannsson, arkitekt. Stöpull er ferstrendur og á honum er lágt pýramídaþak. Á því er mjór áttstrendur burstsettur turn, með hljómop á framhlið og áttstrendri spíru yfir. Kirkjuþak er krossreist og klætt bárustáli, en turn og turnþök eru klædd sléttu járni. Stöpull er klæddur bárustáli og kirkjuveggir eru ýmist klæddir bárujárni eða bárustáli. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar, einn á hvorri hlið stöpuls og einn á framhlið uppi yfir dyrum. Í þeim er T-laga póstur með tveimur þriggja rúðu römmum neðan þverpósts, en fjórum rúðum ofan hans, undir boga. Efst á framhlið stöpuls er hringgluggi.
Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Altaristaflan er olíumálverk frá síðari hluta 19. aldar, eftir danska konu, Andreu Taftrup og sýnir Jesú á bæn í Getsemane. Gömul altaristafla hangir á sönglofti. Hún sýnir kvöldmáltíðina og var gefin kirkjunni árið 1701. Kirkjan á koparaltarisstjaka frá árinu 1693. Þá á kirkjan silfurkaleik og patínu. Kaleikurinn er dönsk smíð frá seinni hluta 18. aldar , enpatínan er líklega íslensk. Prédikunarstóllinn er sjöstrendur með fimm spjaldsettum hliðum og skreyttur máluðum myndum af Kristi og postulunum. Hans er fyrst getið árið 1701. Tvær klukkur eru í turni, önnur steypt í Kaupmannahöfn árið 1805, hinnar er getið í vísitasíu árið 1857. Bjalla frá árinu 1547 hangir á sönglofti.
