- Jóhanna Magnúsdóttir
- Sóknarprestur
Skeiðflatarkirkja
Skeiðflatarkirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1900. Hönnuður hennar var Samúel Jónsson forsmiður frá Hunkubökkum á Síðu. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er mjór áttstrendur burstsettur turn með hljómop á framhlið og áttstrendri spíru. Hann stendur á breiðum ferstrendum stalli. Kirkjan er klædd bárustáli og stendur á steinhlöðnum sökkli.
Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar. Í þeim er miðpóstur og þverpóstar um sex rúður auk þverrúðu efst með tígullaga rimum að innan. Á framstafni yfir kirkjudyrum eru þrír sex rúðu póstagluggar, heldur minni en aðrir kirkjugluggar. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir. Yfir kirkjuskipinu er reitaskipt stjörnusett hvelfing stafna á milli. Í upphafi var kórbak múrhúðað en kirkjan annars klædd bárujárni. Kirkjan tekur 160 manns í sæti.
Altaristaflan er eftir Anker Lund og sýnir upprisuna. Hún er frá árinu 1906. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, sem talin eru íslensk smíð, hugsanlega úr tveim eldri kaleikum. Skírnarfonturinn var upphaflega smíðaður af Eyjólfi Jónssyni á Vestra-Skagnesi. Hann var gerður upp af Karli Ragnarssyni, að tilhlutan 50 ára fermingardrengja kirkjunnar, og kom í kirkjuna árið 1994. Í honum er skírnarskál úr kristal, sem gefin var af kvenfélagi Dyrhólahrepps. Annar skírnarfontur er í kirkjunni og er hann skorinn úr tré. Skurðurinn myndar stuðla og er málaður eins og marmari. Skírnarskálin er lítil koparskál gerð af Jörundi Gestssyni frá Hellu í Strandarsýslu. Orgelharmóníum stendur sunnan megin í kór. Þá er í kirkjunni hollenskt rafmagnspípuorgel. Kirkjuklukkur eru tvær í turni. Sú eldri úr Sólheimakirkju frá árinu 1742. Hin úr Dyrhólakirkju frá árinu 1766.