
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Breiðabólsstaðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1892–1893. Hönnuður hennar var Vilhjálmur Halldórsson forsmiður. Í öndverðu var kirkjan öll pappaklædd að utan nema turn sem var sinkklæddur og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Um 1925 var þakið klætt bárujárni og veggir klæddir steinajárni um 1932. Á árunum 1964–1969 voru sökklar steinsteyptir, gluggum breytt og veggir plötuklæddir að innan. Á árunum 1990–1992 var turninn endurbyggður og þá var smíðuð hvelfing yfir setuloft. Risþak er á kirkjunni, en krossreist þök á framkirkju og kór. Upp af framstafni er hár ferstrendur turn með krossreistu þaki. Hann stendur á bjúgstalli.
Hringgluggi er á framstafni turns og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd steinajárni, þök bárujárni, turn sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum og einn á hvorri hlið kórs. Í þeim er miðpóstur og þverrimar. Ofarlega á vesturstafni eru tveir gluggar og í þeim miðpóstur og tvær rúður. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi með skásettum rimum og bjór yfir. Altaristaflan sýnir Jesú blessa börnin og er eftir danska málarann Anker Lund frá árinu 1920. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðuð af Helga Þórðarsyni silfursmið á Bransstöðum í Blöndudal. Kirkjan á einnig fornt skírnarfat úr messing, skreytt áletrun og drifnum bólum og dropum. Klukkur Breiðabólsstaðarkirkju eru tvær, önnur frá árinu 1740, hin líklegast frá 17. öld.
Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.

