
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur

Viðvíkurkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1886. Hönnuður hennar var Þorsteinn Hannesson forsmiður frá Auðólfsstöðum. Risþak er á kirkjunni og er það klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og þverrimar utan á rúðum. Einn gluggi er á hvorri hlið turns og einn á framhlið yfir dyrum og í þeim miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Krappar eru undir vatnsbrettum. Stöpull nær upp að mæni kirkju. Á honum er flatt þak og á því lágur ferstrendur turn með háa ferstrenda spíru sem gengur út undan sér neðst. Handrið með renndum pílárum og hornstólpum eru á frambrúnum þaka stöpuls og turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Magnús Jónsson guðfræðiprófessor og var málað árið 1938. Verkið sýnir Krist upprisinn. Eldri altaristafla er yfir kirkjudyrum. Hún er frá árinu 1722 og er kvöldmáltíðarmynd, máluð á tré. Kirkjan á silfur kaleik og patínu, smíðuð af Helga Þórðarsyni 1761-1828 á Brandsstöðum í Blöndudal. Þá á kirkjan kaleik úr tini með rómönsku lagi. Hann var í kirkjunni árið 1833. Skírnarfonturinn er útskorin súla úr íslensku birki eftir Svein Ólafsson. Í honum er skírnarskál úr messing. Tvær klukkur eru í Viðvíkurkirkju. Þær hafa sennilega komið nýjar í turninn árið 1893.


