Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Víðidalstungu, 531 Hvammstanga
Kirkjugarður
Fjöldi: 100
Sókn
Víðidalstungusókn

Víðidalstungukirkja

Víðidalstungukirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1889. Hönnuður hennar var Halldór Bjarnason bóndi og kirkjusmiður frá Litlugröf í Borgarhreppi. Í öndverðu var kirkjan öll pappaklædd að utan nema bjúgstallur og turnþak sem voru sinkklædd og hún stóð á steinhlöðnum sökkli. Þak var klætt bárujárni árið 1900 og veggir árið 1913. Gert var við kirkjuna árið 1960 og var m.a. sökkull steinsteyptur og breyttir gluggar settir í hana og árið 1981 var kirkjan plötuklædd að innan. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með krossreist þak og stendur á bjúgstalli. Undir þakskeggi turns eru skornir sperruendar og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum.

Kirkjan er klædd bárujárni, turn sléttu járni og stendur hún á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum, einn heldur minni á hvorri hlið kórs og tveir ofarlega á framstafni. Í gluggum er miðpóstur og þverrimar. Póstgluggi með tveimur þriggja rúðu römmum er á framhlið turns og bjór yfir. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og yfir þeim þvergluggi og bjór.

Altaristaflan er eftir Ásgrím Jónsson listmálara, máluð árið 1916. Hún sýnir Jesú flytja fjallræðuna í íslensku landslagi. Kirkjan á kaleik og patínu sem eru nýlegir gripir, algylltir í gotneskum stíl. Í kirkjunni er súla með skírnarskál, sem kom í kirkjuna árið 1961. Skírnarskálin er úr hvítum leir. Klukkur Víðidalstungukirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1781, hin var keypt til kirkjunnar á árunum 1820-1821.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Edda Hlíf Hlífarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Magnússon
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Margrét Rut Valdimarsdóttir
  • Héraðsprestur Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi