- Fjölnir Ásbjörnsson
- Prestur

Þingeyrarkirkja
Þingeyrarkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem reist var á árunum 1910–1911. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsmeistari ríkisins. Kirkjan var skrautmáluð að innan árið 1961 af Jóni og Grétu Björnsson.
Árið 1988 var kirkjan einangruð að utan og húðuð múr. Árið 2001 var einangrun tekin af veggjum og útlit hennar fært til fyrra horfs. Þakið er krossreist og upp af framstafni, sem snýr til norðurs, er ferstrendur turn með háa tvískipta áttstrenda spíru sem gengur út undan sér að neðan. Turninn stendur á lágum stalli jafnbreiðum. Hljómop er á framhlið turns en fölsk á hliðum.
Kirkjan er múrhúðuð, þök og turnhliðar bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni. Stoðveggir eru við hliðar og út frá göflum kirkju og forkirkju og ufsastallar á kampagöflum. Á hvorri hlið kirkju eru sjö smárúðóttir oddbogagluggar, þrír minni á hvorum stafni auk lítils glugga á hvorri hlið forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, oddbogalagaðar að ofan.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Þórarin B. Þorláksson listmálara frá árinu 1911 og sýnir Jesú blessa börnin í íslensku landslagi. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1956. Skírnarfonturinn er úr eik, útskorinn af Ríkarði Jónssyni myndskera. Í honum er kristalskál.
Kirkjan á skírnarfat úr messing, sem getið var í vísitasíu árið 1749, en var þá í Sandakirkju. Kirkjuklukkur Þingeyrarkirkju eru tvær. Önnur er frá árinu 1652, hin kom ný í kirkjuna árið 1952.

- Hildur Inga Rúnarsdóttir
- Prestur

- Magnús Erlingsson
- Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis