
- Magnús G. Gunnarsson
- Prestur

Snartastaðakirkja var byggð sumarið 1928 og vígð þann 3. mars árið 1929. Arkitekt kirkjunnar var Guðjón Samúelsson arkitekt og húsmeistari ríkisins. Yfirsmiður var Ingvar Jónsson. Kirkjan er öll úr steinsteypu, með timbur og járnþaki að utan. Forkirkjan er með háum turni. Kirkjan er með hvelfingu og er í hvítum og gráum lit að utan, með rauðu bárujárnsþaki. Á kirkjuskipinu eru átta oddbogamyndaðir gluggar, í kór fjórir gluggar einslagaðir og í forkirkju og turni fimm gluggar eins að lögun.
Altaristaflan er Kristsmynd, eftirlíking af töflu Carls Bloch og sýnir Jesú blessa börnin. Önnur eldri altaristafla hangir yfir dyrum. Hún var máluð af Sveinunga Sveinungasyni frá Lóni og kom hún úr Presthólakirkju. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti. Auk þess á kirkjan kaleik og patínu frá Kristnitökuhátíðinni árið 2000. Skírnarfonturinn er allstór með marmaraskál og talsverðum skurði og fjórum dúfum sem standa á barmi skálarinnar. Tvær kirkjuklukkur eru í Snartastaðakirkju.
