
- Bryndís Svavarsdóttir
- Sóknarprestur

Brjánslækjarkirkja er friðuð timburkirkja, sem byggð var árið 1908. Höfundur kirkjunnar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari ríkisins.
Kirkjan er einlyft með forkirkju og turni beint upp af henni og stendur á steyptum grunni. Þakið er krossreist og á turni er tvískipt píramídalaga þak, sem klætt er sléttu járni. Kirkjan tekur 50 manns í sæti. Veggir kirkjunnar eru klæddir hvítmáluðu bárujárni. Á hvorri hlið eru þrír sex rúðna gluggar.
Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1912 eftir Þórarin B. Þorláksson listmálara og sýnir Krist sem góða hirðinn í íslensku landslagi. Á framstafni norðan kirkjudyra er gömul altaristafla, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Hún mun vera dönsk frá 18. öld. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem er dönsk smíð frá árinu 1804. Þá á kirkjan þjónustukaleik og patínu úr silfurhúðuðum málmi, sem eru nýlegir gripir.
Skírnarfonturinn er með glerskál. Hann er sexstrendur efst úr rauleitum harðviði. Fontinn smíðaði og skar Sveinn Ólafsson frá Lambavatni á Rauðasandi, myndskeri í Reykjavík. Klukkur Brjánslækjarkirkju eru þrjár, ein lítil bjalla, sem er kórbjalla úr kaþólskum sið, önnur gömul klukka og hin þriðja kom í kirkjuna árið 1913 sem gömul skipsklukka.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.
