
- Arna Grétarsdóttir
- Sóknarprestur
Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, Vindáshlíðarkirkja er í einkaeigu Vindáshlíðarstarfs KFUM og KFUK á Íslandi. Kirkjan er friðlýst timburkirkja frá árinu 1878, en hún var byggð í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hönnuður hennar var Eyjólfur Þorvarðsson forsmiður frá Bakka. Kirkjan var flutt að Vindáshlíð árið 1957 og kór reistur við kirkjuna og innri gerð breytt verulega. Hönnuður breytinganna var Aðalsteinn Thorarensen húsgagnasmiður. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak. Hljómop með hlera er á framhlið turns. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum, en lítill gluggi hvorum megin á kór. Yfir gluggum, nema kórgluggum, er bjór. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bjór yfir. Á altarinu stendur afsteypa Kristsmyndar Thorvaldsens í Vorfrúarkirkju í Kaupmannahöfn. Hún stendur á blámálaðri vegghvilft. Kirkjan á danskan silfurkaleik og patínu frá árinu 1958. Kirkjuklukka er í turni frá árinu 1957.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson
