Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kálfafellsvegi, 881 Kirkjubæjarklaustri
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 60

Kálfafellskirkja

Kálfafellskirkja er friðlýst kirkja frá árinu 1898. Hönnuður er ókunnur. Kirkjan er timburhús og er þakið krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Hljómop með hlera er á hvorri turnhlið. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru fjórir 12 rúðu gluggar og einn á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir. Yfir þvera kirkju er forkirkja, stúkuð af framkirkju með þverþili. Á kórgafli eru flatsúlur og bogi á milli þeirra yfir altari. Reitaskipt, skrautmáluð hvelfing er yfir framkirkju og kór. Kirkjan var að hluta til klædd bárujárni í upphafi en um 1918 var lokið við að klæða kirkjuna alla bárujárni. Árið 1905 var hvelfing smíðuð í kirkjuna og loft yfir fremri hluta framkirkju. Á árunum 1959-1960 var kirkjan lengd til vesturs, smíðaður á hana þakturn, nýir breyttir gluggar og bekkir settir í hana og loftið tekið úr kirkjunni.

Kirkjan var skrautmáluð að innan árið 1960 af Jóni og Grétu Björnsson. Altaristaflan er frá árinu 1683, krossfestingarmynd máluð á tré. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri smíðuð af Árna Helgasyni silfursmið á Brekku í Norðurárdal um 1780. Gripirnir voru áður í Sandfellskirkju, síðar í Hofskirkju í Öræfum, en komu í Kálfafellskirkju árið 1916. Skírnarfatið í kirkjunni er eftirlíking af fati því sem var selt til Þjóðminjasafnsins árið 1895. Eftirlíkingin var gerð árið 1985 af Björgvini Svavarssyni silfursmið. Önnur kirkjuklukkan er frá árinu 1733 og hin væntanlega frá 19. öld.

Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Ingimar Helgason
  • Sóknarprestur