
- Helga Kolbeinsdóttir
- Prestur

Keflavíkurkirkja er friðlýst steinsteypt kirkja, byggð á árunum 1914-1915. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Kór var reistur við kirkjuna, viðbyggingar reistar við turn og innréttingum og gluggum var breytt árin 1966-1967. Hönnuður breytinganna var Ragnar Emilsson húsateiknari hjá embætti Húsameistara ríkisins. Forkirkja var byggð við turn og kór og tengdur við safnaðarheimili árið 1997. Hönnuðir þess voru Elín Kjartansdóttir, Haraldur Örn Jónsson og Helga Benediktsdóttir arkitektar.
Á hvorri hlið kirkjunnar eru krossstúkur. Á kirkjunni er risþak og upp af framstafni er ferstrendur turn með hátt píramítaþak. Veggir eru múrhúðaðir, þök bárujárnsklædd, en eir á þaki forkirkju. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir gluggar og tveir á hvorri krossstúku. Hvorum megin á kórstúkum og kór eru gluggaraðir með þremur bogadregnum gluggum, en við kórbak er tengibygging við safnaðarheimili kirkjunnar. Í gluggum framkirkju og kórs er steint gler. Tveir gluggar eru á framstafni og tveir á framhlið turns, ferkantaður gluggi á hvorum hliðarvegg turns, en efst á turnveggjum eru hringlaga gluggar og úrskífur í þremur þeirra. Á forkirkju er sinn glugginn á hvorri hlið og stór hringgluggi með steindu gleri á framstafni yfir spjaldsettum vængjahurðum kirkjudyra.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson listmálara frá árinu 1916 og sýnir Jesú flytja fjallræðuna. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti frá árinu 1915 og tvo samstæða silfurkaleika, sem kirkjunni voru gefnir árið 1965. Skírnarfonturinn er úr eik, smíðaður og útskorinn árið 1945 af Marteini Guðmundssyni myndskera frá Merkinesi í Höfnum. Steindar glermyndir eru í kirkjunni eftir Benedikt Gunnarsson myndlistarmann. Þær voru gerðar árið 1977. Þrjár kirkjuklukkur eru í kirkjunni, sem voru keyptar frá Þýskalandi árið 1963.


