Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Staðarhóli, 371 Búðardal
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 60
Sókn
Staðarhólssókn

Staðarhólskirkja

Staðarhólskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1899. Hönnuður hennar var Jóakim Guðmundsson forsmiður. Kirkjan fauk af grunni þann 17. febrúar árið 1981 og brotnaði. Hún var endurreist á árunum 1981–1982 á steinsteyptum grunni. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru og undir honum breiður stallur. Lítil ferstrend hljómop eru á fjórum turnhliðum.

Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn á hverri hinna fjögurra hornsneiðinga. Þeir eru oddbogalaga og í þeim átta rúður. Einn gluggi sömu gerðar, en minni, er á framstafni og hringgluggi yfir honum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir. Altaristaflan er dönsk vængjatafla, sem var gefin kirkjunni árið 1750.

Á miðtöflu er síðasta kvöldmáltíðin og innan á vængjum eru málverk, annað af manni með bók og reykelsisker, hitt af konu og yfir höfði hennar skín sól. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru í Kaupmannahöfn árið 1691. Prédikunarstóllinn er frá árinu 1738. Spjöldin eru ný með eftirmyndum af upphaflegum myndum, sem nú eru varðveittar á Þjóðminjasafninu. Tvær kirkjuklukkur eru í Staðarhólskirkju, önnur frá árinu 1691, hin er án áletrunar.

Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Elísa Mjöll Sigurðardóttir
  • Sóknarprestur