
- Elísa Mjöll Sigurðardóttir
- Sóknarprestur

Staðarhólskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1899. Hönnuður hennar var Jóakim Guðmundsson forsmiður. Kirkjan fauk af grunni þann 17. febrúar árið 1981 og brotnaði. Hún var endurreist á árunum 1981–1982 á steinsteyptum grunni. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru og undir honum breiður stallur. Lítil ferstrend hljómop eru á fjórum turnhliðum.
Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn á hverri hinna fjögurra hornsneiðinga. Þeir eru oddbogalaga og í þeim átta rúður. Einn gluggi sömu gerðar, en minni, er á framstafni og hringgluggi yfir honum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir. Altaristaflan er dönsk vængjatafla, sem var gefin kirkjunni árið 1750.
Á miðtöflu er síðasta kvöldmáltíðin og innan á vængjum eru málverk, annað af manni með bók og reykelsisker, hitt af konu og yfir höfði hennar skín sól. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðuð voru í Kaupmannahöfn árið 1691. Prédikunarstóllinn er frá árinu 1738. Spjöldin eru ný með eftirmyndum af upphaflegum myndum, sem nú eru varðveittar á Þjóðminjasafninu. Tvær kirkjuklukkur eru í Staðarhólskirkju, önnur frá árinu 1691, hin er án áletrunar.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson
