Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Miðgörðum, 611 Grímsey
Bílastæði
Hljóðkerfi
Salerni
Kirkjugarður
Fjöldi: 80
Sókn
Miðgarðasókn

Miðgarðakirkja

Miðgarðakirkja hin nýja var reist eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar arkitekts og vígð 10. ágúst árið 2025. Kom hún í stað timburkirkjunnar sem brann til grunna 22. september árið 2021.

Sú kirkja var byggð af Árna Hallgrímssyni trésmið frá Garðsá árið 1867. Kirkjan hans var í upphafi af einföldustu gerð, turnlaus og með krossreistu mænisþaki, öll gerð af rekaviði. Árið 1932 var kirkjan stækkuð og færð um lengd sína og sett á steinsteyptar undirstöðu. Framan við hana var reist forkirkja með sönglofti yfir og þar fyrir ofan ferstrendur turn með topplaga þaki. Á mörkum sönglofts og turns var stallur. Turninn var mjórri og þar var á alla vegu handrið með renndum pílárum milli stoða á hornum og ofan á hverri stoð lítill gylltur járnkross. Við austurgaflinn reis kór undir þrengra formi.

Ýmsar endurbætur eða breytingar voru gerðar á þessari kirkju þegar fram liðu stundir. Kirkjuskipið vara klætt asbesti að innan, bárujárn sett á þakið og veggirnir voru að utanverðu klæddir stálplötum sem ryðbrunnu fljótt og í stað þeirra kom trefjaplast.

Eftir brunann í september 2021 var ekkert heillegt eftir nema járnkrossarnir fjórir. Söfnuðurinn ákvað að reist skyldi ný kirkja með fjölbreyttu notagildi, bæði til trúarlegra athafna og annarra félagslegra samkoma. Ákveðið var að hún skyldi endurspegla sögu kirkjustaðarins og tengjast náttúru Grímseyjar eftir því sem unnt væri.

Frásögnin um komu Guðmundar Arasonar Hólabiskups til Grímseyjar árið 1222 þegar hann blessaði björg eyjarinnar var rifjuð upp og varð tilefni þess að ákveðið var að hið blessaða stuðlaberg Grímseyjar skyldi nota til kirkjunnar eftir því sem aðstæður leyfðu.

Kirkjan er að mestu smíðuð úr vönduðu lerki frá Síberíu, líkt og rekaviðurinn í fyrri kirkju. Grunnurinn er steinsteyptur en klæddur að utan með stuðlabergi, stuðlabergsflísar eru á öllum þökum og gólfi kirkjuskipsins.i

Nýja kirkjan skyldi vera sem líkust þeirri sem brann en með ýmsum úrbótum þó. Lögun hennar ber að mestu leyti svipmót þeirrar gömlu nema hvað kirkjuskipið er lítið eitt breiðara til að auðvelda kistuburð og það er nú allt undir sama formi. Forkirkjan með söngloftinu og turninum er með sömu lögun og áður með handriðinu.

Gömlu krossarnir sem björguðust úr rústinni eru nú á sama stað og áður, en nú voru þeir gullhúðaðir í stað gyllingarinnar sem áður var á þeim. Við hlið kirkjuskipsins og tengt því var reist skrúðhús með einföldu mænisþaki þar sem er snyrting og geymsla fyrir búnað og skrúða kirkjunnar auk klefa fyrir nútíma tækjabúnað. Auk þess er í þessari viðbót geymsla fyrir nauðsynlegan búnað kirkjugarðsins.

Veggir kirkjunnar eru klæddir hefluðum og nótuðum lerkiborðum að utan en að innan eru veggir og þaksúð klædd gamaldags súð úr lerki sem felld saman í ferninga sem myndaðir eru af þykkari borðum. Í þaksúðinni eru störnulaga op sem varpa gulleitu ljósi og stuðla líka að góðri hljóðvist.

Altarið er gert úr blessuðu stuðlaberginu og rís þar einn stuðullinn upp úr stuðlabergsgólfinu og á honum hvílir altarisborðið, einnig út bergi. Í stað gamaldags altaristöflu í formi málverks verður lifandi myndum varpað á austurvegginn yfir altarinu og gefst kostur á að velja myndefni eftir tilefni hverju sinni. Myndir úr náttúru eyjarinnar, sköpunarverkinu, verða til reiðu, t.d. hreyfimynd af fuglsunga að skríða úr eggi, af fugli að mata unga sinn á síli, af fugli sem svífur um geyminn. Einnig af gjálfrandi öldu við klettavegg og brimi sem skellur á strönd eða fiski sem syndir um sædjúpin. Við veraldlegar athafnir velja menn annað myndefni við hæfi.

Byggingastjóri kirkjunnar var Kristján Eldjárn Hjartarson frá Tjörn í Svarfaðardal, burðarþolshönnuður var Ingvar Blængsson verkfræðingur, hljóðvistarhönnuður var Ragnar Viðarsson. Raflagnir hannaði Helgi Kristinn Eiríksson, brunatæknileg hönnnun var í höndum Aldísar Rúnar Lárusdóttur og trésmíðameistarar voru Hilmar Páll Jóhannesson á fyrri hluta verksins og Ari Már Gunnarsson á síðara hluta þess. Pípulagningameistari var Magnús Á Magnússon og múrarameistari Júlíus Viðarsson. Rafvirkjameistari á fyrri hluta var Eiríkur Símon Jóhannesson en á síðari hluta verksins var meistari raflagna Steingrímur Ólafsson. Valdimar Jóhannsson húsgagnasmiður á Akureyri gaf og skar út skírnarfontinn og mun þetta vera 10. skírnarfonturinn sem hann sker út.

Altarissilfrið, kaleikur og patína er úr Kirkjuhúsinu. Kirkjuklukkurnar eru gjöf frá Hallgrímssöfnuði í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og velunnurum. Klukkurnar voru steyptar hjá Royal Eijsbouts í Asten í Hollandi, sömu klukkusteypunni og steyptar klukkur Hallgrímskirkju. Á þær eru rituð orðin: Hljómar frá heimskautsbaugi.

Á klukkurnar eru letruð fjögur ártöl:

1779 og 1852, til minningar um eldri klukkur
2021, í minningu brunans
2023, steypuár nýju klukknanna

Þó Miðgarðakirkja sem nú stendur sé ólík þeirri sem brann árið 2021 er nýja kirkjan þó hönnuð þannig að skuggi nýju kirkjunnar í kvöldsólinni í Grímsey er svo til alveg eins og skuggi gömlu kirkjunnar.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Erla Björk Jónsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Oddur Bjarni Þorkelsson
  • Sóknarprestur