
- Eva Lín Traustadóttir
- Djákni

Kálfatjarnarkirkja er friðlýst timburkirkja, byggð á árunum 1892-1893. Hönnuður hennar var Guðmundur Jakobsson forsmiður. Í öndverðu voru suðurhliðar turns og kirkju klædd bárujárni sem og kirkjuþök, norðurhliðar turns og kirkju voru klæddar láréttri plægðri borðaklæðningu, en austurstafn og kór klædd þakhellum. Efri hluti turns var áttstrendur og á honum spíruþak. Turnþaki var breytt árið 1935. Hönnuður breytingannna var á hendi Embættis Húsameistara ríkisins. Á árunum 1975-1993 var unnið að viðhaldi kirkjunnar í nokkrum áföngum og hún var þá m.a. öll klædd að utan með bárujárni. Hönnuðir breytinganna voru Hörður Ágústsson listmálari og Þorsteinn Gunnarsson arkitekt. Þök kirkjuskips og kórs eru krossreist, en á turni er píramítaþak sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Hornborð eru á kór, kirkju og turni og á honum eru þrjú hæðarskilsbönd.
Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir, en einn gluggi á hvorri hlið kórs. Niðri eru þrír sexrúðu gluggar með tvíbogadregnum földum yfir, boga að neðan, en oddboga að ofan. Yfir hverjum þeirra eru tveir minni samlægir gluggar bogadregnir að ofan. Falskir gluggar eru á turni, tveir samlægir á hverri hlið með hringglugga ofanvert og yfir þeim þrír samlægir gluggar með tveimur hringgluggum yfir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogagluggi. Altaristaflan er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara frá árinu 1866 af töflu G. T. Wegerens í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún sýnir upprisuna. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, smíðað af Leifi Kaldal gullsmið árið 1953. Tvær klukkur eru í kirkjunni, önnur frá árinu 1795, hin er leturlaus.


