
- Kristín Þórunn Tómasdóttir
- Sóknarprestur

Torfastaðakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1893. Hönnuður hennar var Árni Þorsteinsson forsmiður, bóndi og fræðimaður frá Brennistöðum í Flókadal. Á krossreistu þaki upp af framstafni er turn með ferstrent þak, íbjúgt um miðju. Undir honum er bjúgstallur. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir, er á framhlið turns en faldar um fölsk hljómop, á turnhliðum hvorum megin. Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd báruðum stálplötum og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkjunnar eru þrír gluggar. Í þeim er T-laga póstur og tveir rammar með þremur rúðum hvor og þverrammi að ofan með einni rúðu. Á framstafni yfir kirkjudyrum er póstgluggi með þriggja rúðu römmum en þrír samlægir gluggar á hvorri hlið kórs, hver með fjórum rúðum.
Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Altaristaflan er frá árinu 1893 og er eftir Anker Lund Hún sýnir Krist blessa bersyndugu konuna. Kirkjan á kaleik og patínu, sem virðast vera eftir Þorgrím Tómasson gullsmið á Bessastöðum, en hann lést árið 1849. Skírnarfonturinn er úr ljósri eik, ferstrendur með loki. Hann var fenginn frá Englandi og er nýlegur. Skálin er úr eir. Kirkjuklukkurnar eru tvær. Hin eldri frá árinu 1739, en sú yngr frá um 1890.
Ljósmynd tók Jóna Þórunn Ragnarsdóttir.

