
- Snævar Jón Andrésson
- Sóknarprestur

Hjarðarholtskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1904. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari ríkisins. Þak kirkjunnar er krossreist og á milli krossálma í norðvestur horni er ferstrendur burstsettur turn með háu píramítaþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd en turnþak sink klætt og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norður, suður og vesturstöfnum kirkjunnar eru þrír samlægir burstsettir gluggar og aðrir tveir uppi á stöfnunum. Einn gluggi sömu gerðar er á hliðarveggjum, krossálma, einn á norðurhlið turns og annar heldur minni yfir dyrum. Í gluggum eru rimar úr steypujárni. Efst undir þakbrúnum kirkju og turns eru skammbitar og dvergur upp undir mæni og hæðarskilsband sett kröppum ofarlega á turni undir burstsettum hljómopum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og burstsett skyggni yfir. Altaristaflan er olíumálverk á striga frá miðri 19. öld og sýnir Krist í Emmaus. Taflan mun vera verk danska listmálarans Vilhelms J. Rosenstand d. 1915. Kirkjan á silfurkaleik og patínu.Kaleikurinn mun vera íslenskur frá 19. öld og er e.t.v. eftir Jón Andrésson silfursmið. Patínan er hugsanlega eldri. Skírnarfonturinn er úr harðviði, útskorinn með plettskál með blómagreftri. Tvær klukkur eru í Hjarðarholtskirkju, önnur er frá árinu 1720, hin er án áletrunar og mun keypt til kirkjunnar árið 1858.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson.
