
- Halla Rut Stefánsdóttir
- Sóknarprestur

Goðdalakirkja er friðlýst timbur kirkja, sem byggð var árið 1904. Hönnuður hennar var Þorsteinn Sigurðsson forsmiður. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkjunnar eru tveir gluggar, einn á hvorri hlið kórs og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Í þeim er krosspóstur og tíu rúður í römmum en krappar undir efra vatnsbretti. Stöpull nær upp fyrir mæni kirkju og á honum er áttstrent þak og áttstrendur tvískiptur turn yfir. Á neðri hluta turns er rismikið þak upp af efri hluta hans og áttstrend keila yfir. Turnþök eru klædd sléttu járni. Fjögur hljómop með hlera fyrir eru á neðri turnhliðum en laufskurður á öllum hliðum efri hluta. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og þvergluggi með skásettum rimum yfir.
Altaristaflan ef eftirmynd danska málarans C.C. Tilly frá árinu 1837 af síðustu kvöldmáltíðinni eftir Leonardo da Vinci. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá árinu 1732. Skírnarfonturinn er útskorinn og renndur úr birki eftir Johannes Waage í Borgarnesi. Tvær kirkjuklukkur eru í Goðdalakirkju. Önnur er úr kirkjunni á Hofi í Vesturdal, hin er frá árinu 1820.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.


