Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Garðavegi 23, 220 Hafnarfirði
Símanúmer
565-2050
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 360
Sókn
Víðistaðasókn

Víðistaðakirkja

Fyrsta skóflustungan að Víðistaðakirkju var tekin á sumardaginn fyrsta þann 23. apríl árið 1981 og framkvæmdir við bygginguna hófust í kjölfarið. Vígsla kirkjunnar fór fram sunnudaginn 28. febrúar árið 1988. Hönnuðir kirkjunnar voru hjónin Lovísa Christiansen innanhússarkitekt og Óli G. H. Þórðarson arkitekt, sem unnu verkið í nafni fyrirtækis síns Litlu teiknistofunnar í Hafnarfirði. Þegar horft er á kirkjuna úr lofti sést að byggingin tekur mið af engli með útbreidda vængi. Það var hugmynd arkitektsins að hanna kirkjuna í því formi. Í kirkjuskipinu rúmast um 360 manns, en hægt er að opna inn í safnaðarsalinn og auka þannig rýmið fyrir um 120 manns til viðbótar. Einnig er hægt að sitja á svölum yfir miðju kirkjuskipinu. Víðistaðakirkja er stundum nefnd „Kirkja Fjallræðunnar“, en hin einstaka freska eftir Baltasar Samper er samansett af myndum sem málaðar eru út frá sæluboðunum sem marka upphaf Fjallræðu Jesú Krists. Freskan er um 200 m2 að stærð, ein sú stærsta í kirkju á Norðurlöndum. Altari, skírnarfontur og prédikunarstóll eru í stíl og gerð úr grágrýti. Á altari eru fjórir kertastjakar og kross í stíl úr hömruðu silfri. Þá á kirkjan kaleik og patínu frá sama hönnuði.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Bragi Jóhann Ingibergsson
  • Sóknarprestur