Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Strandgötu 51, 220 Hafnarfirði
Símanúmer
520-5700
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 320
Sókn
Hafnarfjarðarsókn

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var árið 1914. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Tengibygging var reist milli kirkju og safnaðarheimilis árið 1994. Hönnuðir breytinganna voru Hans-Olav Andersen og Sigríður Magnúsdóttir arkitektar. Risþak er á kirkjunni og krossstúkum. Veggir eru múrhúðaðir, þök bárujárnsklædd og á kirkjunni eru bogadregnir gluggar skreyttir steindu gleri. Á turninum er hátt píramítaþak sem dregið er niður yfir hliðarveggi turns hvorum megin og sett bogakvisti með úrskífu en tvö ferstrend hljómop undir á turnveggjum. Úrskífur eru og á fram og bakhliðum turns og þrjú bogadregin hljómop. Tengibygging er við suðurstúku yfir í safnaðarheimili sunnan kirkjunnar. Dyr eru á forkirkju hvorum megin turns og á kórstúkum. Kirkjudyr eru á framhlið turns, inndregnar, og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir og lágbogagluggi yfir. Stór hringgluggi er uppi yfir kirkjudyrum og tveir ferstrendir gluggar, en lítill hringgluggi ofarlega á krossstúkustöfnum.

Altaristaflan er olíumálverk eftir danska málarann Rudolf J. Carlsen og sýnir upprisu Jesú.

Hún var keypt til Garðakirkju árið 1879. Altarið er úr Garðakirkju, en undirbríkin er frá árinu 1914. Kirkjan á kaleik og patínu úr Garðakirkju. Þorgrímur Tómasson gullsmiður á Bessastöðum uppsmíðaði kaleikinn um 1828. Auk þess á kirkjan silfurkaleik og patínu smíðað af Leifi Kaldal gullsmið árið 1934. Prédikunarstóll Hafnarfjarðarkirkju er úr Garðakirkju, smíðaðaur árið 1880 af Páli Halldórssyni snikkara. Fótur og himinn er frá árinu 1914. Skírnarfonturinn er einnig úr Garðakirkju og mun smíðaður af Páli Halldórssyni snikkara. Stærri kirkjuklukkan er úr stáli og var smíðuð í Þýskalandi árið 1870. Hin er smíðuð úr tveimur sprungnum koparklukkum árið 1932 í Reykjavík.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Jónína Ólafsdóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Sighvatur Karlsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Þuríður Björg Wiium Árnadóttir
  • Prestur