Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Ögri, Ögurkirkjuvegi, 401 Ísafjörður
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 50

Ögurkirkja

Ögurkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1859. Hönnuður hennar er ókunnur. Þakturn var reistur og hvelfing smíðuð í kirkjuna um 1886. Hönnuður breytinganna var líklega Jakob Rósinkarsson forsmiður og bóndi í Ögri. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn og á honum ferstrent íbjúgt þak. Bogadregin hljómop með hlera fyrir eru á turnhliðum. Kirkjan er klædd listaþili, þak klætt bárujárni og turnþak klætt sléttu járni. Kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á framstafni uppi yfir kirkjudyrum. Í þeim er níurúðu rammi og skoraðir faldar til hliðar og strikuð brík yfir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og um þær svipaður umbúnaður og um glugga.

Altaristaflan er olíumálverk á striga frá árinu 1899 eftir danska listmálarann Anker Lund og sýnir Krist upprisinn fyrir framan grafarmunnann. Kirkjan á silfurkaleik og patínu. Kaleikurinn er danskur og var gefinn kirkjunni árið 1854. Patínuna, sem er í gotneskum stíl smíðaði Hallgrímur Kristjánsson gullsmiður á Akureyri. Kirkjan á skírnarfat úr messing frá 16. öld. Tvær klukkur eru í Ögurkirkju, önnur er með latneskri áletrun, hin án áletrunar, líklega frá árinu 1871.

Ljósmynd tók Ólafur Sigurðsson.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Fjölnir Ásbjörnsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Hildur Inga Rúnarsdóttir
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús Erlingsson
  • Prófastur Vestfjarðaprófastdæmis