
- Magnús G. Gunnarsson
- Prestur

Sauðaneskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1888–1889. Hönnuður hennar var Björgólfur Brynjólfsson forsmiður frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Efni í grind var tilsniðið í Mandal í Noregi. Í öndverðu var þak kirkjunnar klætt spæni og allir veggir klæddir listaþili, en síðar voru þak og kórbak klædd bárujárni. Turninn gengur tæplega hálfa lengd sína inn á þak kirkjunnar og á honum er píramítaþak klætt sléttu járni. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili, nema kórbak sem er bárujárnsklætt, og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn heldur minni á framhlið turns. Í þeim er krosspóstur og rammar með sex rúðum. Efst á framhlið turns er hringgluggi, en ferstrendur hleri fyrir hljómopi á hvorri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og þrískiptur þvergluggi yfir.
Altaristafla Sauðaneskirkju er vængjatafla úr tré, gerð í Danmörku árið 1742. Á miðtöflu er kvöldmáltíðarmynd og innan á vængjum eru myndir af Móse og Kristi. Prédikunarstóllinn er frá árinu 1765 og er með myndum af guðspjallamönnunum. Skírnarfonturinn er úr eik, gerður af Ríkarði Jónssyni myndskera árið 1953. Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðuð árið 1851 af Indriða Þorsteinssyni gullsmið á Víðivöllum. Kirkjuklukkur Sauðaneskirkju eru báðar leturlausar. Annarrar þeirra er fyrst getið árið 1748, hin mun vera yngri.
