
- Aðalsteinn Þorvaldsson
- Prestur
Hólakirkja í Eyjafirði er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1853. Hönnuður hennar var Ólafur Briem forsmiður á Grund. Þak kirkjunnar er krossreist, klætt bárujárni, og sunnan megin á því er kvistur með sexrúðu glugga. Kross er á mæni upp af framstafni. Kirkjan er klædd slagþili, stendur á steinhlöðnum sökkli og er fest niður með þremur stögum á suðurhlið.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur sexrúðu römmum og aðrir tveir á kórbaki, en gluggi með tveimur tveggja rúðu römmum uppi á stafninum. Hlerar eru fyrir gluggum suðurhliðar. Ofarlega á framstafni eru tveir litlir tveggja rúðu gluggar en milli þeirra klukknastóll með tveimur klukkum.
Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Altaristaflan er dönsk og var fengin til kirkjunnar seint á 18. öld. Á miðtöflunni er síðasta kvöldmáltíðin, á öðrum vængnum er Kristur í Getsemane, á hinum er Kristur fjötraður, krýndur þyrnikórónu. Á utanverðum vængjunum er krossfestingin og upprisan. Kirkjan á silfurkaleik og patínu smíðuð af Sigurði Oddssyni gull og silfursmið árið 1786. Klukkur Hólakirkju hanga á ramböldum framan á stafni yfir dyrum. Þær eru báðar fornlegar, sléttar og leturlausar.


