Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Lögmannshlíð, 601 Akureyri
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 70

Lögmannshlíðarkirkja

Lögmannshlíðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1860. Hönnuður hennar var Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni.

Innansmíði annaðist að mestu Jón Jónsson Mýrdal forsmiður og rithöfundur. Forkirkja var smíðuð á kirkjuna árið 1886 en forkirkjuturn árið 1892 og þá var setuloft smíðað í kirkjuna og kvistur á suðurþekju. Í öndverðu var skarsúðarloft á sperrum yfir kirkjunni, en árið 1892 var klætt neðan á sperrur og skammbita.

Þak kirkjunnar er krossreist og kvistur á suðurhlið. Kirkjan er klædd slagþili, þak bárujárni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn ofarlega á kórbaki. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Turninn er breiður neðst en ferstrendur efst og á honum sveigt píramítaþak klætt sléttu járni, en veggir eru klæddir yfirfelldu listaþili. Þrír þriggja rúðu hálfgluggar eru á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Altaristaflan er með vængjum, máluð á tré af óþekktum útlendum málara og sýnir Krist í Emmaus á miðtöflu og sinn guðspjallamanninn á hvorum væng. Á töflunni er áletrunin Anno 1648. Prédikunarstóllin var málaður árið 1781 af Jóni Hallgrímssyni málara. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir gripir frá seinni hluta 19. aldar.

Skírnarfonturinn er úr renndum viði, hvítmálaður með gylltum baugum og skírnarskál úr silfri. Hann var gefinn kirkjunni um miðja 20. öld. Tvær klukkur eru í Lögmannshlíðarkirkju. Önnur er frá árinu 1754, hin var fengin ný til kirkjunnar árið 1864.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Hildur Björk Hörpudóttir
  • Sóknarprestur
Mynd sem tengist textanum
  • Sindri Geir Óskarsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Eydís Ösp Eyþórsdóttir
  • Djákni