Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Laufáskirkja, Grenivíkurvegi, 616 Grenivík
Bílastæði
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 75
Sókn
Laufás- og Grenivíkursókn

Laufáskirkja

Laufáskirkja er friðuð timburkirkja, sem vígð var þann 30. júlí árið 1865. Tryggvi Gunnarsson bóndi og timburmaður á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal teiknaði kirkjuna og stjórnaði kirkjusmíðinni ásamt Jóhanni Bessasyni frá Skarði. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með tvískiptu þaki. Turninn er hár og ferstrendur og á hverri hlið er gluggi með sexrúðu ramma og strikuð brík og bogi yfir. Lágreist íbjúgt þak er á turninum upp að lágum og mjóum ferstrendum yfirturni skreyttur renndum pílárum á hliðum.

Á honum er íbjúgt lágt píramítaþak sem há stöng rís upp af. Kirkjan er klædd plægðri borðaklæðningu. Breið yfirborð eru felld yfir þynnri og mjórri borð, þak er klætt bárujárni, turnþök sléttu járni og húsið stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju og á kórbaki eru þrír gluggar, en einn á framstafni. Í þeim er miðpóstur og tveir rammar með sex rúðum hvor. Hálfsúlur eru við gluggahliðar en yfir þeim strikuð brík og bjór. Fyrir kirkjudyrum eru bogadregnar spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar innri spjaldahurð og um þær hálfsúlur og bogi.

Altaristaflan er olíumálverk eftir óþekktan danskan listmálara frá seinni hluta 19. Aldar og sýnir Krist vekja son ekkjunar frá Nain upp frá dauðum. Taflan kom í kirkjuna nýsmíðaða. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem líklega eru íslensk smíð frá árinu 1741. Prédikunarstóllinn er útskorinn og málaður, prýddur myndum af guðspjallamönnunum og Kristi. Stóllinn var smíðaður af Illuga Jónssyni bónda í Nesi í Höfðahverfi árið 1698. Skírnarsárinn var útskorinn af bræðrunum Kristjáni og Hannesi Vigfússonum frá Litla Árskógi. Í honum er skírnarfat úr stáli. Auk þess á kirkjan skírnarfat úr messing, sem fyrst er getið árið 1659. Klukkur Laufáskirkju er frá árunum 1652 og 1790.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Hafdís Davíðsdóttir
  • Sóknarprestur