Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Garðskirkjuvegur, 671 Kópaskeri
Bílastæði
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 90
Sókn
Garðssókn

Garðskirkja

Garðskirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1890. Hönnuður hennar var Stefán Erlendsson forsmiður. Í öndverðu voru tveir rammar í gluggum, hvor með átta rúðum, kirkjan var turnlaus, en klukknaport stóð gegnt kirkjudyrum. Steypt var utan á veggi kirkjunnar árið 1949 og steinsteyptur turn reistur árið 1950. Gólf var steypt árið 1970 og gluggum breytt. Lágreist þak er á kirkjunni, en píramítaþak á turni, bæði klædd bárujárni. Kirkjan er kvarshúðuð, en brúnir um glugga og dyr, á hornum, undir þakskeggi og þakbrúnum eru húðaðar hrafntinnu. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með 16 rúðum, tveir gluggar með átta rúðum á kórbaki en þrír gluggar á hvorri turnhlið og hringgluggi á framhlið turns, en þvergluggi efst upp undir þakskeggi. Um glugga eru bogadregnir faldar. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Altaristaflan er eftirmynd Sveinunga Sveinungasonar frá árinu 1903 af töflu sem áður var í Garðskirkju, en er nú á Þjóðminjasafninu. Hún sýnir Krist með kaleik í hægri hendi og upplyfta, blessandi vinstri hendi. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir frá árinu 1723. Skírnarfonturinn er úr eik, útskorinn af Jóhann Björnssyni myndskera á Húsavík árið 1959. Klukkur Garðskirkju eru tvær. Önnur er talin vera frá árinu 1150, hin er frá árinu 1651.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Magnús G. Gunnarsson
  • Prestur