
- Hafdís Davíðsdóttir
- Sóknarprestur

Illugastaðakirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1860–1861. Hönnuður hennar var Jón Sigfússon forsmiður og bóndi á Sörlastöðum. Forkirkja var reist við kirkjuna árið 1953. Þak kirkjunnar er krossreist og trékross upp af framstafni, en á forkirkju er risþak. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum og tveir á kórbaki hvorum megin altaris. Í þeim er miðpóstur og þverrimar. Ofarlega á kórbaki er minni póstgluggi með tveimur þriggja rúðu römmum en lítill fjögurra rúðu gluggi á framstafni. Kvistur með fjögurra rúðu glugga er á suðurhlið. Steinsteyptur skorsteinn er við norðurhlið og steinsteypt rör upp þakið. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir, smárúðóttar að ofan. Yfir þeim er hringgluggi.
Altaristaflan er vængjatafla og sýnir Krist á krossinum. Innan á vængjum eru myndir af Maríu og Jóhannesi. Hún er með nafni Einars Þorsteinssonar Hólabiskups d. 1696 og kom úr Hálskirkju árið 1920. Önnur altaristafla er til hliðar, að sunnanverðu á kórgafli. Hún var máluð af Jóni Hallgrímssyn málara árið 1765 og sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem smíðaðir voru af Friðfinni Þorlákssyni gullsmið á Akureyri og gefnir kirkjunni árið 1849. Prédikunarstóllinn er í barokkstíl og var smíðaur af Guðmundi Guðmunssyni í Bjarnastaðarhlíð. Hann er með ártalinu 1683. Klukkur Illugastaðakirkju munu vera frá árinu 1797 og 1857.
