Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Þangbakka 5, 109 Reykjavík
Símanúmer
587-1500
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Fjöldi: 300
Sókn
Breiðholtssókn

Breiðholtskirkja

Fyrstu verðlaun í samkeppni um byggingu kirkju í Breiðholti hlutu arkitektarnir Guðmundur Kr. Kristinsson og Ferdínand Alfreðsson ásamt Herði Björnssyni, tæknifræðingi. Kristinn Sveinsson var ráðinn byggingarmeistari kirkjunnar og yfirsmiður var Örn Erlendsson.

Burðarstoðir kirkjunnar eru 12 stórir límtrésbitar, sem klæddir eru með dökkbrúnu innbrenndu stáli, og mætast þeir í einum punkti eins og tjaldsúlur og bera uppi stóran kross, sem gnæfir yfir kirkjunni. Grunnflötur kirkjunnar er í megin dráttum hringlaga, en á milli burðarstoðanna koma brot á neðrihluta útveggjanna, þannig að grunnmyndin er 12 arma stjarna og gluggar í þaki mynda einnig slíka stjörnu í lofti kirkjuskipsins. Breiðholtskirkja er byggð á tveimur hæðum og tekur um 320 í manns í sæti. Á neðri hæð er safnaðarheimilið. Þar er stór og bjartur hringlaga salur, þar sem auðveldlega má leggja á borð fyrir 160-180 manns. Á efri hæð er sjálft kirkjuskipið ásamt stóru anddyri og skrúðhúsi. Innveggir eru klæddir rauðviði frá Kaliforníu.

Aðgengi fatlaðra að kirkjunni er nokkuð gott, að öðru leyti en því, að aðeins er stólalyfta milli hæða. Sérstakur rampi er fyrir hjólastóla að aðalinngangi og einnig upp að altari.

Skírnarfontur stendur vinstra megin við altarið og er hann úr beyki. Kirkjan á kaleik, oblátubuðk og patínu. Kaleikurinn og oblátubuðkurinn eru á fæti úr málmi með fiskamynstri og patínan gyllt. Þá á kirkja þrjá leirkaleika og patínur frá kristnihátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Kirkjan á hvítt Hyundai píanó með bekk. Auk þess er í kirkjunni svartur Samick flygill. Þá er í kirkjunni nítján radda pípuorgel, smíðað af Björgvini Tómassyni árið 1998 og vígt þann 20. september það sama ár. Hljóðkerfi með fjórum míkrófónum, er í kirkjunni. Við kerfið er einnig tengdur geislaspilari og tvöfalt segulband.

Kirkjuklukkurnar eru í frístandandi klukknaporti, sem stendur fyrir framan kirkjuna. Um er að ræða þrjár klukkur frá Nauen Klokkestøperi í Tønsberg í Noregi. Þær eru rafknúnar og rafstýrðar og hægt er að stilla hringingar með ýmsu móti. Þá er einnig í klukknaporti lítið klukkuspil með átta klukkum, þ.e ein áttund með heilnótum.

Ljósmynd tók Eysteinn Guðni Guðnason.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Steinunn Þorbergsdóttir
  • Djákni
Mynd sem tengist textanum
  • Bjarki Geirdal Guðfinnsson
  • Prestur
Mynd sem tengist textanum
  • Bryndís Malla Elídóttir
  • Prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra
Mynd sem tengist textanum
  • Pétur Ragnhildarson
  • Sóknarprestur