
- Eiríkur Jóhannsson
- Prestur

Hallgrímskirkja er stærsta kirkja Íslands og rís hæst bygginga yfir höfuðborgina Reykjavík. Turninn er 73 metra hár og þar er hægt að njóta útsýnis yfir borgina, sundin blá og fjallahringinn umhverfis hana. Hallgrímskirkja er fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson 1887 – 1950, einn virtasti arkitekt landsins, hófst handa við að teikna kirkjuna árið 1937. Þjóðlegur stíll einkenndi byggingarlist hans. Hann notaði íslenskar fyrirmyndir og íslenskt efni. Hallgrímskirkja, sem varð hans síðasta verk, minnir á stuðlaberg, íslensk fjöll og jökla. Bygging Hallgrímskirkju hófst árið 1945 og 1948 var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan sjálf var vígð þann 26. október árið 1986.
Kirkjan á kaleik og patínu, sem voru smíðuð og hönnuð af Leifi Kaldal árið 1948. Þá á kirkjan kaleik og patínu úr nýsilfri, sem er gylltur að innan. Gripir þessir eru ensk hönnun og smíði. Auk þess á kirkjan 98 sérbikara úr silfri og eru þeir einnig gylltir að innan. Kirkjan á þrjá leirkaleika og patínur. Kaleikana og patínurnar gerði listakonan Guðrún Indriðadóttir. Skírnarfonturinn er úr íslensku stuðlabergi og tékkneskum blýkristal, hannaður af Leifi Breiðfjörð. Í kristalinn eru letruð ritningarorð úr Markúsarguðspjalli 16:16: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Á steininn er letrað bænavers eftir Hallgrím Pétursson: „Vertu, Guð faðir, faðir minn“. Prédikunarstóllinn er hönnun húsameistara ríkisins árið 1993. Glerlistaverkin gerði Leifur Breiðfjörð og er gler í hurðum úr forkirkju einnig eftir hann.
Kórorgel kirkjunnar var byggt af Th. Frobenius og Sønner Orgelbyggeri A/S í Lyngby í Danmörku og vígt í desember árið 1985. Kórorgelið var endurbyggt og stækkað í 20 raddir og vígt á hvítasunnudag þann 19. maí árið 2024. Konsertorgelið við vesturgaflinn í Hallgrímskirkju er stærsta orgel á Íslandi og sækjast organistar víða um heim eftir að leika á orgelið og hljóðrita í kirkjunni. Það var smíðað í Johannes Klais orgelsmiðjunni í Bonn í Þýskalandi og vígt í desember árið 1992. Orgelið hefur fjögur hljómborð og fótspil, það er 72 raddir og hefur 5275 pípur. Í kirkjunni er Bösendorf flygill og Steinway & Sons píanó. Kínverskt píanó er í kórkjallara. Þrjár samhringingarklukkur eru í turni kirkjunnar.Þá eru 28 klukkur í klukknaspili. Eijsbouts í Hollandi gerði klukkurnar. Nýtt stýrikerfi klukkna var tekið í notkun árið 1992.
Ljósmynd tók Guðmundur Karl Einarsson

