Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Kirkjuvegi 10, 625 Ólafsfirði
Símanúmer
466-2560
Tölvupóstur
olokirkja@gmail.com
Bílastæði
Hljóðkerfi
Safnaðarheimili
Salerni
Streymi
Aðgengi
Kirkjugarður
Fjöldi: 200
Sókn
Ólafsfjarðarsókn

Ólafsfjarðarkirkja

Ólafsfjarðarkirkja er friðlýst steinsteypukirkja, sem byggð var árið 1915. Hönnuðir hennar voru Rögnvaldur Ólafsson og Einar Erlendsson arkitektar. Kirkjan var lengd árið 1997 og safnaðarsalur og safnaðarheimili byggð við norðurhlið. Hönnuður breytinganna var Fanney Hauksdóttir arkitekt. Þök kirkjunnar eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er múrhúðuð, múrbrúnir undir þakskeggi og múrhúðaðar vindskeiðar undir þakbrúnum, bogadregnar neðst á innri brún og þverskornar að neðan.

Stöpull er ferstrendur og á honum sinkklætt ferstrent þak og lágur turn upp af með píramítaþaki sem gengur út undan sér neðst. Undir þakskeggi stöpuls og turns eru einfaldir þverstrikaðir krappar. Á suðurhlið kirkju eru sjö smárúðóttir bogadregnir gluggar, þrír á norðurhlið og einn minni á hvorri kórhlið og einn á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls. Gluggi er ofarlega á þremur hliðum stöpuls en þrír samlægir gluggar á turni.

Stór hringgluggi er á framstafni stöpuls yfir dyrum og annar minni á austurstafni kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Við norðurhlið kirkjunnar er steinsteyptur kirkjusalur og safnaðarheimili og á þeim bogagluggar og krossreist bárujárnsklædd þök.

Altaristaflan er eftir Maron Sölvason. Hún var máluð fyrir kirkjuvígsluna árið 1915. Hún sýnir Krist í Getsemane. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá árinu 1746. Gripir þessir voru í Kvíabekkjarkirkju árið 1912 og eru gömul íslensk smíð. Auk þess á kirkjan nýjan kaleik og patínu úr silfri.

Níu radda pípuorgel er í kirkjunni, sem var smíðað árið 1988 af Björgvin Tómassyni. Skírnarfonturinn var gefinn kirkjunni árið 1980. Fóturinn var smíðaður af Jóni Sigurjónssyni á Akureyri. Í honum er skírnarskál úr messing. Tvær kirkjuklukkur eru í Ólafsfjarðarkirkju.

Vígðir þjónar
Mynd sem tengist textanum
  • Stefanía Guðlaug Steinsdóttir
  • Sóknarprestur