- Erla Björk Jónsdóttir
- Prestur
Glæsibæjarkirkja
Glæsibæjarkirkja er friðlýst timbur kirkja, sem byggð var á árunum 1865-1866. Hönnuður hennar var Þorsteinn Daníelsson forsmiður á Skipalóni. Kirkjan er smíðuð upp úr Ósstofu í Hörgárdal, sem Þorsteinn reisti árið 1858. Turn var smíðaður á kirkjuna árið 1929. Hönnuður hans er ókunnur. Þak kirkjunnar er krossreist og kvistur á því sunnan megin.
Kirkjan er klædd slagþili, þak bárujárni, turnþak sléttu járni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum og einn á framhlið stöpuls. Tveir hálfgluggar með þremur rúðum eru á kórbaki. Stöpull nær upp að mæni kirkju, á honum er píramítaþak og á því mjór turn með íbjúgu píramítaþaki.
Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og burstgluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk eftir Arngrím Gíslason, málara frá árinu 1882 og sýnir Jesú blessa börnin. Kirkjan á silfurkaleik og patínu frá árinu 1612. Gripirnir gætu verið íslensk smíð, en þeir komu í kirkjuna í lok 19. aldar úr Grundarkirkju. Á stétt kaleiksins er grafið nafn Jóns Björnssonar, sonarsonar Jóns biskups Arasonar. Skírnarfonturinn var smíðaður af Jóni Hólmgeirssyni húsgagnasmið á Akureyri árið 1988. Klukkur Glæsibæjarkirkju eru báðar mjög fornlegar, en leturlausar.

- Oddur Bjarni Þorkelsson
- Sóknarprestur