
- Ægir Örn Sveinsson
- Sóknarprestur

Brimilsvallakirkja er steinsteypt kirkja sem vígð var árið 1923. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins, en yfirsmiður var Alexander Valentínusson. Árið 1967 fóru fram gagngerar endurbætur á kirkjunni.
Allir gluggar voru endurnýjaðir og kirkjan máluð. Árið 1982 var svo skipt um járn á þaki og turni. Árið 2002 fóru einnig fram miklar endurbætur þegar þakjárn kirkjunnar var endurnýjað, sem og gluggar á norðurhlið, auk þess sem falskir póstar voru settir innan í alla glugga.
Sáluhliðið er smíðað og gefið af Ragnari Ágústssyni. Altaristaflan er frá árinu 1962 eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og sýnir Jesú ganga á vatninu. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfurpletti frá árinu 1923. Skírnarfonturinn er úr tekkviði á fæti í stuðlabergsgerð, birkiviði í miðju og súlan er sexstrend úr rauðaviði. Rendurnar og kantarnir úr renndum birkiviði. Skírnarfonturinn er smíðaður af Bjarna Kjartanssyni frá Búðum á Snæfellsnesi.
Skírnarskálin er úr úr kristal og hvílir á silfurplettskál. Gamall skírnarfontur er geymdur á kirkjulofti. Kirkjuklukkur Brimilsvallakirkju eru tvær, stærri klukkan er frá árinu 1926, en hin minni án ártals.
