
- Gunnar Eiríkur Hauksson
- Prófastur Vesturlandsprófastdæmis
Stykkishólmskirkja gamla er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1878–1879. Hönnuður hennar var Helgi Helgason, forsmiður í Reykjavík. Yfirsmiðir kirkjunnar voru Jóhannes Jónsson í Reykjavík og Sveinn Jónsson frá Djúpadal. Þeir eru einnig taldir hafa mótað kirkjuna. Í kringum aldamótin 1900 var turni kirkjunnar breytt verulega en árið 1998 var hann færðurtil upprunalegs horfs. Hönnuður breytinganna var Jon Nordsteien, arkitekt. Þak kirkjunnar er krossreist og lagt skífum. Upp af framstafni er ferstrendur turn með skífulögðu risþaki, en undir honum er stallur. Hljómop með vængjahlerum og bogaglugga yfir er á framstafni turns. Kirkjan er klædd listaþili nema framstafn sem klæddur er láréttum plægðum borðum og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir bogadregnir krosspóstagluggar. Í þeim eru þriggja rúðu rammar neðan þverpósts og tveir rammar undir fjórðungsboga að ofan og laufskurður efst. Hringgluggi með krossrima er á framstafni uppi yfir dyrum.
Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bogagluggi yfir. Altaristaflan er olíumálverk á striga frá árinu 1882, eftir Arngrím Gíslason málara og sýnir Krist upprisinn birtast Maríu Magdalenu. Skírnarfonturinn er úr tré og kom hann í kirkjuna eftir 1911. Skírnarskálin er úr gleri og gerði Ebba Júlíana Lárusdóttir, glerlistakona hana, árið 2000. Klukkur gömlu Stykkishólmskirkju komu í kirkjuna árið 1906 og árið 1910.
